Ég hef oft nefnt það að við Íslendingar erum gjarnir á að búa okkur til kerfi sem vaxa okkur yfir höfuð – og við eigum svo í mestu vandræðum með að hnika.
Það getur verið vegna hagsmuna, tregðulögmála – og jafnvel stjórnmála sem einkennast fremur af skammsýnu þrasi en heilbrigðri skynsemi.
Svona virðist þetta vera með mjólkurframleiðslu. Hvaða vit er í því að afhenta einu risafyrirtæki völd yfir öllum mjólkurvörum í landinu? En eru einhverjar líkur á að verði samstaða um að vinda ofan af þessu kerfi?
Og svona er það líka með heilbrigðiskerfið þar sem allt hefur í langan tíma stefnt í átt til miðstýringar. En árangurinn hefur ekki verið sérlega góður. Nei, heilbrigðisþjónustan er í molum, allt frá heilsugæslustöðvum upp í skurðstofur. Það er brostinn stórkostlegur landflótti í lækna- og hjúkrunarlið og húsakynni eru allsendis ófullægjandi.
En samt virðist ekki vera hægt að ná samstöðu meðal stjórnmálamanna um aðgerðir. Menn segja eitt þegar þeir eru í ríkisstjórn og allt annað þegar þeir eru stjórnarandstöðu.
Þessari mynd er deilt víða á Facebook. Það verður að segjast eins og er, hún er bráðsnjöll. Höfundurinn er Páll Ivan frá Eiðum.