Í fimmta þætti Vesturfaranna förum við um byggðarlögin Árborg og Heklueyju. Þátturinn er á dagskrá Rúv á sunnudagskvöld klukkan 20.10.
Í Árborg fáum við meðal annars að heyra af konu sem saknaði Skagafjarðar svo mjög að útbúin var handa henni sérstök Drangey til að horfa á.
En á Heklueyju, sem er stærsta eyjan í Winnipegvatni, var lengi íslensk byggð. Þótt náttúran sé fögur, þá voru aðstæður oft erfiðar – byggðin var mjög afskekkt. Fólkið flutti burt af Heklu upp úr miðri síðustu öld, en nú hafa nokkrir snúið aftur.
Hjónin Maxine og John Ingalls búa á Heklueyju. Maxine er uppalin þar, en John var áður í Konunglegu kanadísku riddaralögreglunni (RCMP) hann er af Ingalls fjölskyldunni – þeirri sem er vel þekkt úr sjónvarpi.