Þingkonur úr Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki leggja fram frumvarp um að allt myndefni sem sýnt er í sjónvarpi skuli textað á íslensku.
Þetta mun vera í annað skipti að þetta frumvarp er lagt fram.
Þetta væri í sjálfu sér besta mál – tilgangurinn er að heyrnarlausir og heyrnarskertir geti notið alls sjónvarpsefnis.
Staðreyndin er hins vegar sú að neysla myndefnis er að færast æ meir til erlendra efnisveita, eins og Netflix, Hulu Plus og iTunes. Að maður tali ekki um efni sem er hlaðið niður miður löglega af netinu. Þetta er orðinn mjög stór hlutur af öllu áhorfi á Íslandi.
Ekkert af þessu efni er á íslensku eða með íslenskum texta, og það sem meira er – afar litlar líkur eru á að það verði í framtíðinni.
Eins og stendur er íslenskt sjónvarp í grimmri samkeppni við þessar útlendu veitur. Talsverðar líkur eru á við gætum farið halloka í henni. Drjúgur hluti þeirrar kynslóðar sem er að vaxa úr grasi sér afar sjaldan íslenskt sjónvarp – og á varla eftir að upplifa sérstaka þörf fyrir það.
Mestöll menningarneyslan er á ensku. Íslenskan er eitthvað púkalegt sem er notað í kennslustundum. Er þá furða að maður heyrir íslensk börn æ oftar ræða sín á milli á enskri tungu?