Gestur Jónsson hefur í meira en áratug verið lögmaður auðmanna sem hafa efni á að kaupa sér bestu lögfræðiþjónustu sem hugsanleg er. Sumir hafa líka getað keypt sér fjölmiðla til að hafa áhrif á almenningsálitið. Það hafði ekki lítið að segja í Baugsmálinu.
Nú er Gestur enn að verja auðmenn sem eru sakaðir margvíslega hvítflibbaglæpi. Þeir tengjast meðal annars hinum ótrúlega ruglaða hlutabréfamarkaði sem var á Íslandi um tíma – og algjöru hruni hans. Þetta er stærsta hlutabréfahrun í sögu mannkyns.
Flest bendir þó til þess að helstu gerendurnir hafi komist undan með stórar fjárhæðir.
Gestur og lögfræðingarnir beita alls kyns aðferðum til að tefja málið og þæfa, það er ekki nema eðilegt – fyrir það fá þeir borgað. Einn liður í þessu virðist hafa verið að segja sig frá málinu með stórum yfirlýsingum.
Dómari hefur nú hafnað þeirri leið.
Yfirlýsingar já, á blaðamannafundi líkir Gestur réttarhöldunum yfir auðmönnunum við Geirfinnsmálið.
Þar átti í hlut skítblankt ungt fólk sem var hirt upp og sett í einangrun svo skipti mánuðum og árum.
Að bera það saman við moldríka menn sem geta keypt sér þjónustu klárustu lögfræðinga landsins – og láta ekki svo lítið að mæta í réttinn nema svona endrum og eins – er ekki smekklegt.
Og það sem er kannski ennþá skrítnara er að í þessum leikþætti er með Gesti kollegi hans Ragnar Hall. Sá var sérstakur saksóknari þegar fjallað var um endrupptöku Geirfinnsmálsins á sínum tíma og eru fræg ummæli hans um að sakborningarnir þar hafi ekki verið neinir „kórdrengir sem hafi verið sóttir í fermingarveislu“.