Líklega hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki komist í hann jafn krappann í forsætisráðherratíð sinni og í dag.
Allir fjölmiðlar rifja upp ummæli hans um hækkun á matarskatti. Þau voru svo afdráttarlaus að ljóst er að fyrir fáum árum fannst Sigmundi þetta algjör fjarstæða:
„Í dag fékk ég staðfest eftir mjög áreiðanlegum heimildum að það sé raunverulega til umræðu í fullri alvöru innan ríkisstjórnarinnar að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Það eru skelfilegar fréttir.
Almennur virðisaukaskattur er nú þegar sá hæsti í heiminum á Íslandi og skattar á almenning eru fyrir löngu komnir yfir þolmörk heimilanna.
Það er löngu sannað að skattahækkanir á matvæli koma verst við þá sem lægst hafa launin og þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður á sínum tíma skipti það mjög miklu máli fyrir fjárhag heimilanna.
Að hækka virðisaukaskatt á matvæli í þeirri stöðu sem nú ríkir er hrein aðför að láglaunafólki. Þetta er rangt og þetta verður að stöðva.“
Þetta eru sterk orð – og maður spyr hvers vegna Sigmundur hefur skipt um skoðun. Er skýringin samningar við Sjálfstæðisflokkinn sem fólu í sér að hann samþykkti skuldaleiðréttingu Framsóknar?
Eða hvað?
Þetta kemur upp sama dag og Sigmundur flytur stefnuræðu sína sem forsætisráðherra – hún verður á RÚV í kvöld. Það er mjög óþægilegt fyrir hann, enda er líklegt að hækkun matarskattsins muni yfirgnæfa önnur mál. Og ekki bætir það stöðuna fyrir hann að innan Framsóknar er líka mikil óánægja með þessa aðgerð.