Ég hef þekkt fólk sem leggur ofboðslega mikið á sig fyrir boðsmiða. Finnst jafnvel hálfgerð óvirðing að þurfa að borga sig inn á viðburði.
Ég man eftir fólki sem mætir jafnvel þótt það sé án boðsmiða og ætlast til þess að fá inngöngu – í krafti einhverrar frægðar, raunverulegrar eða ímyndaðar.
Boðsmiðar geta semsagt hálfpartinn ært fólk – rétt eins og aðgangur að ókeypis áfengi.
Mér berast stundum boðsmiðar, en mér finnst þeir hálf hvimleiðir. Það er miklu betra að borga sig bara inn eins og allir aðrir. Ég hef ágæt laun – ég hef vel efni á því að kaupa miða. Ég er ekkert merkilegri eða betri tónleika- eða leikhúsgestur en hver annar.
Ég skil ágætlega varabæjarfulltrúann í Kópavogi sem gerir athugasemd við að bæjarfulltrúar hafi fengið ókeypis miða á tónleika Justins Timberlake. Þetta voru rándýrir miðar og mjög eftirsóttir.
Maður sér að víðast er lagt út af þessu eins og maðurinn sé bara svona ferlega öfundsjúkur, en siðareglur bæjarins virðast vera nokkuð skýrar:
„Óheimilt er að þiggja gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim sem leita eftir þjónustu Kópavogsbæjar ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.“