Eldgosið í dag er mögulega furðulegasti fjölmiðlaviðburður í samanlagðri fréttasögu Íslands.
Þetta var meira að segja orðin fyrsta frétt í erlendum fjölmiðlum. Vinir mínir í útlöndum senda mér pósta og eru mjög áhyggjufullir.
Næstum heilir fréttatímar voru lagðir undir gosið sem var ekkert gos.
Af fréttum Stöðvar 2, þar var 21 mínúta af gosi, var maður engu nær um hvort væri gos eða ekki gos. Eða kannski má segja að hafi verið slökkt á gosinu í miðjum fréttatímanum – þegar fúll eldfjallafræðingur reyndi að komast undan áköfum fréttamanni. Þegar svo var komið virkuðu ráðherrarnir í almannavarnastöðinni ásamt ríkislögreglustjóra hálf kjanalegir.
Nú veit maður auðvitað ekki hvort það fer að gjósa á morgun eða hinn eða hvort gýs yfirleitt, þannig að fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Auðvitað þarf að tryggja öryggi fólks.
En kannski hefur ívið of mikið verið gert úr þessum hræringum að undanförnu.