Það er mjög sérkennileg latína að óeðlilegt sé að Píratar leggi fram vantrausttillögu á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur vegna þess að þeir vilji beinlínis að allt stjórnkerfið leki.
Þetta heyrir maður frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Birni Bjarnasyni og endurómar svo í Fréttablaðinu.
Sigmundur Davíð sagði í gær samkvæmt mbl.is:
„Það er svosem ekki mikið um tillöguna að segja. Það er svolítið sérstakt að vantrauststillaga út af lekamáli skuli koma frá Pírötum. Ég hélt að þeir væru helstu stuðningsmenn leka, löglegs og ólöglegs.“
En í Fréttablaðinu stendur í litlum dálki:
Líklega er þetta vísvitandi útúrsnúningur til að gera lítið úr málinu. Það er býsna mikill munur á lekum þar sem misbeiting valds er afhjúpuð eða leynipukur innan stjórnsýslu og leka sem felur beinlínis í sér misbeitingu valds og leiðir síðan af sér, að því er virðist, yfirhylmingu. Þegar beðið er um gagnsæi í stjórnsýslu er engin að biðja um viðkvæmar persónuupplýsingar – hvað þá að þær séu notaðar til að koma höggi á fólk.
Reyndar er bent á að þetta sé að finna í stefnumálum Pírata:
3.1 Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.
4.1 Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.
Er erfitt að skilja þetta? Eða eru menn kannski að misskilja af ásettu ráði?