Guðni Ágústsson eyðir stórum hluta af grein sinni sem birtist í Morgunblaðinu í að munnhöggvast við greinarhöfund sem skrifar í DV.
Sá mun hafa sagt að Framsóknarflokkurinn ætti að biðjast afsökunar á sögu sinni.
Ég held það sé rétt hjá Guðna að slíkt sé algjör óþarfi.
Þegar Hermann Jónasson hleypti ekki gyðingum – eða réttar sagt sumum gyðingum – til Íslands á árunum fyrir stríð var hann að starfa mjög í anda þess sem tíðkaðist í Evrópu, líka í þeim löndum sem voru lýðfrjáls. Þetta var vond pólitík, en flóttamönnum var víða neitað um landvist á þessum árum. Þetta er örugglega ekkert sem Framsókn þarf sérstaklega að biðjast afsökunar á.
Jónas frá Hriflu var þjóðernissinni, hann sást ekki fyrir í pólitískri baráttu hér heima, en ekkert bendir til þess að hann hafi verið haldinn kynþáttandúð umfram það sem fannst í öðrum flokkum – orðræða um útlendinga og fólk af öðrum kynþáttum var öðruvísi þá. Ef á að taka Jónas sérstaklega út þarf að skoða málið miklu betur.
Og það er algjörlega fráleitt að gera Steingrím Hermannsson að boðbera haturs einfaldlega vegna þess að hann var á móti EES og setti fram slagorðið „öflug þjóð í eigin landi“.
Þetta er svona álíka vitlaust og sífelldar tilraunir til að halda því fram að Útlendingastofnun sé nasistabatterí sökum þess að Agnar Kofoed-Hansen fór á námskeið í Þýskalandi.
Nei, Framsókn getur bara verið nokkuð stolt af þessum fyrrverandi foringjum sínum, þótt auðvitað væru þeir ekki óskeikulir.
En hins vegar skjöplast Guðna í síðari hluta greinarinnar. Borgarstjórnarframboð Framsóknar gaf upp boltann varðandi andúð á fólki sem aðhyllist íslamstrú – og það er n.b. ekki sértrúarsöfnuður – og eftir það opnuðust flóðgáttir haturs. Margir Framsóknarmenn létu vita að þeim væri ofboðið vegna þessa, einn frambjóðendanna í Reyjavík beinlínis hætti. En forysta Framsóknar talaði á þeim nótum að það mætti nú ekki „banna umræðu“ eða að þarna færi umræða sem „þyrfti að taka“ – henni var í lófa lagið að loka þessari glufu þaðan sem hatrið var farið að streyma en gerði það ekki.
Á endanum þurfti að taka niður Facebook síðu Sveinbjargar Birnu – það sem þar stóð var svo ofbjóðanlegt að flokkurinn gat ekki látið það standa.
Guðni getur alveg verið stoltur af sinni Framsókn, en þarna var feilspor sem þarf að leiðrétta. Sökin er ekki hjá þeim sem hann kallar „ritsóða“, enda þótt greinarhöfundurinn í DV hafi farið með fleipur.