Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið sem birtist í morgun sýnir enn styrk Dags B. Eggertssonar. Samfylkingin með hann í fyrsta sæti hækkar enn, er stærsti flokkurinn í borginni, með 30,3 prósenta fylgi.
Þetta er merkilegt í ljósi þess að víðast annars staðar á landinu er Samfylkingin í vandæðum, þar hefur fylgið snarminnkað – og er nokkuð í samræmi við gengi flokksins á landsvísu.
Björt framtíð fellur stöðugt milli skoðanakannana. Þar er úr vöndu að ráða, því ómögulegt er að vita hvar botn Bjartrar framtíðar er í borginni. Það líka spurning á hvaða forsendum flokkurinn á að hefja gagnsókn. Jón Gnarr er á förum – boðskapurinn hefur mestanpart gengið út á að allt sé voða gott og skemmtilegt.
Björt framtíð þarf að grípa til einhverra ráða til að fylgið fari ekki enn neðar – en líkega er best fyrir Dag og Samfylkinguna að gera sem minnst.
Aftur á móti er Björt framtíð að gera ágætt mót víða um land þar sem hún er alveg nýtt framboðsafl eins og til dæmis á Akureyri og Akranesi.
Sjálfstæðisflokkurinn er 6 prósentustigum undir kjörfylginu frá því fyrir fjórum árum, en Framsókn skríður aðeins upp á við. Það er þó ekki mikið miðað við hvað flokkurinn hefur verið mikið í fréttum.
Maður var farinn að sjá óróleika innan raða Sjálfstæðisflokksins vegna Framsóknar – að hún myndi græða á því að vera herskárri en Sjálfstæðisflokkurinn í flugvallarmálinu og taka frá honum fylgi. En líkega þurfa Sjálfstæðismenn ekki að óttast vegna þessa.
Píratarnir virðast vera alveg öruggir með sinn mann, en merkilegt er að sjá afar slaka útkomu VG. Flokkurinn er ekki með nema 5,9 prósent og fer að nálgast það að missa borgarfulltrúann sinn. Þetta gerist þrátt fyrir að VG hafi sett vinsælt mál eins og gjaldfrjálsan leikskóla á oddinn.