Ég hef reynt að forðast að taka mikinn þátt í umræðu um Reykjavíkurflugvöll hin síðari ár, þrátt fyrir áhuga á skipulagsmálum. Maður getur eiginlega ekki gert sjálfum sér það að fara út á þann vettvang. Umræðan er einhvern veginn svo yfirgengilega vond.
Hér er dæmi um það. Frambjóðandi úti á landi er útmálaður sem svikari vegna þess að hann er ekki með hnefann á lofti vegna flugvallarins.
Það virðist allt vera heimilt í þessari umræðu. Það er talað eins og eigi að fara að drepa börn. Flugbraut sem löngu er samið um að eigi að fara dúkkar allt í einu upp sem bráðnauðsynleg „neyðarbraut“ þegar öll önnur rök þrýtur.
Nú vill svo til að er að störfum nefnd undir forystu þeirrar miklu sómakonu Rögnu Árnadóttur sem á að skoða kosti vegna innanlandsflugsins. Þetta var gert með samkomulagi ríkis, borgar og Icelandair.
Það er ýmislegt sem kemur til greina í þessu sambandi. Einn kostur er til dæmis nefndur í afar málefnalegri grein í Fréttablaðinu í dag. Höfundur hennar er Bjarni Gunnarsson verkfræðingur.
Þar er lagt til að flugvöllurinn verði að hluta til færður á uppfyllingar, brautirnar myndu semsagt styttast verulega nær bænum en lengjast út í Skerjafjörð.
Þetta hlýtur að vera vel framkvæmanlegt, þar má nefna að stór hluti hafnarsvæðisins í Reykjavík er á uppfyllingum og nær allur Grandinn.
Ég er ekki að segja að þetta sé lausnin, en þetta er vissulega einn möguleikinn. Menn eiga að stefna að því að finna sátt í þessu deilumáli, ekki vera sífellt að ýfa upp deilur.
Hugmynd Bjarna Gunnarssonar um Reykjavíkurflugvöll sem yrði færður utar í borgarlandinu.