Á vef norska ríkisútvarpsins er fjallað um Huang Nubo, kaupsýslumanninn kínverska sem vill líklega ennþá kaupa Grímsstaði á Fjöllum.
Nubo er kannski orðin vondaufur um þessi kaup, því nú hefur hann snúið sér að Noregi. Hann vill byggja hótel í Bergen, Osló og á Svalbarða, segir NRK.
Og raunar segir að hann vilji fá 216 ferkílómetra svæði á Svalbarða til að setja upp orlofsbæ fyrir Kínverja. Það er ekki ólíkt hinum stóru áformum um uppbyggingu á Grímstöðum.
Annars er greinin nokkuð full af tortryggni. Það er sagt frá því að enginn kaupsýslumaður í Kína nái svo langt nema að vera nátengdur kommúnistaflokknum, þeim „einkaklúbbi“ eins og það er kallað.
Í tengdri frétt eru áform Nubos einnig rædd í samhengi við fullveldi Noregs – og fyrirætlanir Kínverja í Norðurhöfum. Þar er rætt við spænska blaðamanninn Juan Pablo Cardenal sem hefur skrifað bók um framgöngu Kína á alþjóðavettvangi og var á sínum tíma gestur í Silfri Egils.
Cardenal varar Norðmenn við Nubo og Kínverjum.