Maður sér ekki betur en að Framsókn sé að fara fram í Reykjavík með „flugvallarvinum“.
Mun það þá vera yfirskrift framboðsins – Framsókn og flugvallarvinir?
Segjast verður eins og er að pínu er það ankanalegt að næst stærsti stjórnmálaflokkurinn á landsvísu (samkvæmt síðustu alþingiskosningum) skuli bjóða fram með einsmálsfólki.
Það lyktar dálítið af örvæntingu – alveg burtséð frá því hvaða skoðun maður hefur á flugvellinum.
Varla myndi Sjálfstæðisflokkurinn bjóða fram með sundabrautarsinnum eða VG með vinum Austurvallar?
Því þótt mikið hafi verið rætt um flugvöllinn, þá er afar ósennilegt að hann sé efst í huga kjósenda. Þorri borgarbúa notar flugvöllinn afar sjaldan eða líklega aldrei.
Það er spurning hvort Árni Helgason, fyrrverandi formaður Heimdallar, hafi rétt fyrir sér, en hann skrifar á Facebook:
Mér skilst að vinnutitillinn á þessu verkefni hafi verið: „Listi Framsóknar og einhvers málefnis sem við teljum að séum það vinsælt að kjósendur séu tilbúnir að kjósa okkur þrátt fyrir framboðið sjálft.“