Ég hef gert nokkrar tilraunir á ævinni til að halda ræður á árshátíðum eða karlakvöldum.
Í öllum tilvikum hefur það mistekist hrapallega.
Kannski er ég ekki nógu skemmtilegur – en svo kann skýringin líka að vera sú að ég kann ekki að segja dónabrandara.
Ég er frekar teprulegur.
Það er mjög sterk krafa um það á svona samkomum að ræðuhöld skuli vera klámfengin. Kannski er það nauðsyn – fólk sem er búið að fá sér í glas er ekki góðir áheyrendur.
En nú eru karla- og kvennakvöldin komin undir smásjána – og hugsanlega árshátíðirnar líka.
Þetta gerðist eftir að Guðni Ágústsson, einn vinsælasti tækifæriræðumaður landsins, gaf færi á að fara í framboð aftur. Tvíræðir brandarar af kvöldskemmtunum urðu fréttaefni af þessu tilefni.
Og nú er sagt frá kvennakvöldi hjá íþróttafélagi í Kópavogi þar sem konurnar kröfðust þess að ungir karlmenn færu úr að ofan.
Er þá kominn tími til að hreinsa ærlega til á samkomum af þessu tagi? Gera dónaskapinn útlægan?
Þá ætti ég kannski aftur möguleika sem ræðumaður.