Einhver ógleymanlegasta frægðarför Íslendinga á Ólympíuleika var hér um árið þegar skíðin gleymdust heima. Ekki man ég hvar þessir Ólympíuleikar voru haldnir, en þetta olli ákveðnum vandkvæðum fyrir íslensku keppendurna.
Einhvern veginn tókst þó á endanum að útvega skíði, en þá tók ekki betra við, því áburðurinn sem er notaður til að skíði renni betur í snjó gleymdist líka.
Þannig að Íslendingarnir þurftu að nota lánsskíði sem komust eiginlega ekkert áfram.
Nú er verið að efna til annarrar ferðar á Ólympíuleika.
Og til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig les maður að alls verði „11 aðilar“ frá ÍSÍ á leikunum. Keppendur munu vera fjórir.
Við þetta bætast tveir ráðherrar úr ríkisstjórninni með mökum og forseti Íslands með maka.
Það ætti að vera öruggt að skíðin gleymast ekki þegar svona margir hæfir einstaklingar fara á vettvang – og ekki heldur áburðurinn.