Timothy Snyder skrifar stórmerkilega grein um Úkraínu í The New York Review of Books.
Hann fjallar meðal annars um áróðurinn sem gengur út á að uppreisnarmenn í Úkraínu séu hægri öfgamenn og nasistar. Þetta er það sem heyrist frá Moskvu og frá stjórnarliðum í Úkraínu.
En staðreyndin er sú að það eru stjórnarherrarnir sjálfir, bæði í Kiev og Moskvu, sem eru miklu nær öfgunum með því hvernig þeir gera út á hatur á samkynhneigðum til að ala á tortryggni gagnvart Vesturlöndum, með djúprættri spillingu og trú á valdbeitingu. Það var Janúkovits forseti sem setti lög 16. janúar sem tóku almenn lýðréttindi úr sambandi – það var að undirlagi Rússa enda fylgdi fjárhagsaðstoð þaðan í kjölfarið.
Hún er sérkennileg afstæðishyggjan sem flest í því að leggja að jöfnu tilhneiginguna til að halla sér að Evrópusambandinu og tilhneiginguna til að halla sér að Rússlandi og Evrasíska bandalaginu sem Pútín vill stofna og á að binda saman Rússland og ríki eins Hvíta-Rússland, Kazakhstan, Kyrgistan og Tajikistan.
Ekkert af þessum ríkjum getur gert tilkall til að vera lýðræðissamfélag – Pútín vill að Úkraína sláist í hópinn.
Eins og Snyder segir þá er annars vegar valið um Evrópu þar sem er réttarríki, frjáls markaður, ferðafrelsi, velferð, lítil spilling, þar sem ótti ræður ekki ferðinni og takmarkanir eru á hvernig ráðamenn geta beitt valdi sínu.
Hins vegar er það hið evrasíska hugarfóstur Moskvuvaldsins. Þar er byggt á geðþóttaréttarfari, spilling er inngróin í kerfið, mannréttindi eru fyrir borð borin og lýðræði er vart til nema sem sýndarmennska.