James Lovelock er breskur vísindamaður sem á langan og glæsilegan feril.
Í seinni tíð er hann þekktastur fyrir bók sem nefnist The Revenge of Gaia, en þar er hann afar svartsýnn á áhrif loftslagsbreytinga.
Í viðtali við Guardian tekur hann í sama streng. Segir að líklega sé orðið of seint að bregðast við loftslagsbreytingum, viðbrögðin hafi verið alltof máttlaus, eftir tuttugu ár fari allt fjandans til – það sé best að reyna bara að njóta þeirra. Lovelock hefur beinlínis sagt að mannkynið sé of heimskt til að bregðast við þessu vandamáli.
Þetta er að sönnu ógnvekjandi.
Lovelock hefur lengi haldið því fram að nýting kjarnorku sé nauðsynleg til að bregðast við loftslagsbreytingum. Þar hefur hann talað fyrir daufum eyrum.
En ef mark er takandi á Lovelock þá hlýtur kjarnorka að vera svarið – og það að nýta endurnýjanlega orkugjafa af fremsta megni, þá sem ekki valda gróðurhúsaáhrifum.
En kannski er það þegar um seinan – eins og hann segir.