Sumir hafa alið með sér þann draum að Bandaríkin myndu aftur fá áhuga á Íslandi nú þegar málefni norðurslóða eru komin í tísku.
Að Ísland myndi kannski aftur fá strategíska þýðingu fyrir Bandaríkin eins og var í Kalda stríðinu. Íslendingar gátu aldeilis notfært sér það eins og sagan sýnir. Hins vegar upplifðu margir gamlir Bandaríkjavinir mikið umkomuleysi í hruninu þegar Bandaríkjastjórn virtist vera alveg sama.
En svona virðist ekki vera í pottinn búið – draumurinn um að Bandaríkin séu aftur að hefja innreið sína á svæðið í kringum Ísland er jafn fjarlægur og aður.
Stjórnin í Washington er að senda hingað nýjan sendiherra í staðinn fyrir hinn vinsæla diplómata Luis Arreaga.
Þessi náungi heitir Robert C. Barber, hann fær embættið að launum fyrir að borga í kosningasjóð hjá Obama – og það er hlegið að honum í spjallþáttum vestra eins og sjá má í þessari frétt á Stöð 2.
Ísland er semsagt ekki á radarnum í Washington, ekki einu sinni sem mótvægi við Kínverjana sem seilast hér til áhrifa í gegnum pólitíska gistivini sína.
Robert C. Barber, hinn nýi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Að sönnu enginn þungaviktarmaður, en hann borgaði í kosningasjóð.