Það er athyglisvert, og nokkur sigur fyrir DV, að blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson skuli fá verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins.
Þessa viðurkenningu fá þeir fyrir umfjöllun um hælisleitendur en þeir hafa verið býsna ötulir við að fjalla um þau mál – svo mjög að sumum þykir nóg um.
Þannig hafa þeir félagarnir sætt aðkasti fyrir umfjöllun sína um lekamálið svokallaða.
En þarna segja kollegar þeirra í Blaðamannafélaginu að þeir séu á réttri leið – og hvetja þá til að halda ótrauðir áfram.
Í rökstuðningi fyrir verðlaunaveitingunni stendur beinlínis:
Þeir leiða lesendur sína inn í skúmaskotin, gefa röddum hælisleitenda vægi, benda á neikvæð og niðurlægjandi viðhorf, sýna fram á brotalamir í kerfinu og síðast en ekki síst fylgja mörgum þráðum vel eftir.