Líklega eru fáir stjórnmálaflokkar jafn íhaldssamir og Vinstri græn. Íhaldssemin er svo mikil að furðu sætir. En um leið birtir hún tryggð sem er nánast hjartnæm. Engum er hafnað í VG, enginn er kosinn burt – menn fá að ákveða hvort þeir hætti sjálfir.
Í dag var valið á lista Vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Niðurstaðan er sú að Sóley Tómasdóttir leiðir áfram lista flokksins í Reykjavík eins og hún hefur gerði í síðustu kosningum. Þá beið flokkurinn afhroð, fékk 7,2 prósent atkvæða. Ekki er útlitið miklu betra fyrir þessar kosningar, því í nýlegri skoðanakönnun var flokkurinn með 8,2 prósent.
Flokksmenn í Reykjavík sem völdu á listann, og voru reyndar ekki nema 370 talsins, virðast sáttir við að breyta ekki fremur en að sækja aukið fylgi.
Á landsvísu er þessu eins háttað hjá VG. Steingrímur J. Sigfússon virtist ætla að verða ævikjörinn formaður flokksins, en erfiðleikarnir sem hann lenti í á tíma síðustu ríkisstjórnar komu í veg fyrir það.
En Steingrímur hélt samt áfram sem þingmaður, hann sleppti því ekki, og ekki heldur Ögmundur sem er líka á þingi þrátt fyrir að þeir séu í stöðugum deilum um hvað gerðist í vinstri stjórninni þeirra, nýjasta uppákoman er þessi hérna sem fjallað er um í Orðinu á götunni.