Maður hefur haft þetta hvalabjórsmál í flimtingum. Einhvern veginn er ekki annað hægt. Þetta sýnir þjóðrembuna í svo furðulegu ljósi.
En auðvitað hefur þetta aðra hlið – þar sem alvaran er meiri.
Matvæla- og heilbrigðiseftirliti er haldið uppi á þessu landi. Það getur meira að segja verið býsna strangt. Framleiðendur þurfa að gera grein fyrir því hvaða hráefni þeir nota og í hvaða mæli þau eru. Hreinlæti þarf að vera í lagi og allur aðbúnaður.
Undir þetta eru allir sem starfa í matvælaiðnaði og við veitingarekstur seldir. Undanþágur eru almennt ekki veittar.
Því er það afar vond stjórnsýsla þegar ráðherra grípur inn í starfsemi eftirlitsstofnana til að heimila að notað sé í matvælaframleiðslu hráefni sem ekki leyfilegt.
Í þessu tilviki hvalamjöl sem getur verið allt að fimm ára gamalt.
Jú, þetta er spaugstofulegt – en líka alvarlegt. Má búast við fleiri stjórnvaldsaðgerðum af þessu tagi sem byggja á hreinum geðþótta.
Því eins og segir í áliti frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og Matvælastofnun er ekkert sem réttlætir ákvörðun ráðherrans.