Bjarni Benediktsson talaði í viðtali við Gísla Martein gær að Íslendingar ættu að hafa þann „aga sem fylgir því að hafa eigin mynt“.
Þetta er reyndar orðið frekar seint – hefur varla tekist í sögu íslenska lýðveldisins. Minnir dálítið á mann sem er alltaf á leiðinni að hefja nýtt líf, en getur aldrei lagt frá sér flöskuna eða komið sér í ræktina.
Nú erum við enn einu sinni með hagkerfi sem er farið að skekkjast verulega. Það eru gjaldeyrishöftin sem valda. Þetta sést á bólu sem er að myndast á fasteigna- og hlutabréfamarkaði og stafar aðallega af ómældu fé frá lífeyrissjóðum sem dælist þangað inn og hefur ekkert annað að fara.
Bjarni segir að kannski verði hægt að byrja að afnema gjaldeyrishöftin á þessu ári. Það byggist þó á því að „samstilla væntingar“ allra sem eiga í hlut.
Á síðasta ári talaði Bjarni um að hægt yrði að fara afnema gjaldeyrishöftin nú í apríl. Þá talaði hann um að „samrýma væntingar“, sbr. þessa frétt á Eyjunni.
Eins og staðan er núna er ekkert talað við kröfuhafa bankanna, íslenskar krónur sem eru læstar inni í kerfinu eru að blása upp stóra bólu, Seðlabankinn sem á að sjá um losun haftanna hefur ekki til þess umboð stjórnvalda heldur verður hann að fara í gegnum ríkisstjórn og Alþingi – og að auki stefnir í stórátök á vinnumarkaði.
Er þá útlit fyrir að höftin verði afnumin á þessu kjörtímabili? Maður getur ekki treyst á það. Það er ekki auðvelt að fjarlægja slík höft þegar þau eru komin á – og svo er jafnvel hugsanlegt að sumir séu fjarska ánægðir með áhrif sín, auð og völd innan þeirra.