Í grein í Washington Post má lesa hvernig olíudraumar Brasilíumanna eru að verða að engu. Fyrir fáum árum var mikið talað um olíuævintýri sem væri í uppsiglingu í Brasilíu. Menn giskuðu á að í hafinu fyrir utan Brasilíu væri að finna jafngildi 50 milljarða tunna af olíu, þeir bjartsýnustu fóru upp í 250 milljarða tunna.
Nú horfir þetta allt öðruvísi við, samkvæmt stórblaðinu. Olíufyrirtæki sem hafa stundað leit undan ströndum Brasilíu eru að missa áhugann. Ríkisolíufélagi Petrobas er skuldum vafið.
Ástæðan er ekki einungis sú að menn virðast hafa ofmetið hversu mikil vinnanleg olía er þarna á hafsbotni, heldur líka hitt að heimurinn er í auknum mæli að snúa sér að öðrum orkugjöfum. Það er ekki eins freistandi að leita að olíu á svæðum þar sem er erfitt að vinna hana.
Þarna höfum við annars vegar stórfelld vinnsla á olíu úr sandi, líkt og í Kanada, og hins vegar geysilegur uppgangur í vinnslu á jarðgasi með þeirri aðferð sem kallast fracking á ensku. Hún byggir á því að gasi er hleypt upp úr jarðlögum með því að dæla þangað vatni, blönduð sandi og kemískum efnum, af miklum krafti. Jarðgasvinnslunni hefur verið líkt við orkubyltingu sem kunni að vera aðal aflvaki hagvaxtar á næstu árum. Um það er þó deilt, sem og um umhverfisáhrifin, en víst er að þetta er farið að hafa mikil áhrif á orkumarkaðinn líkt og lesa má á Orkubloggi Ketils Sigurjónssonar.
Á þessari skýringarmynd má sjá hvernig gas er unnið úr jarðlögum með aðferðinni sem kallast fracking. Gasið er til í gífurlegu magni en erfitt hefur verið að nýta það.