Sigurveig kona mín á afmæli í dag. Hún er afskaplega vinnusöm, mér skilst hún ætli að leggja gjörva hönd á bókhald í í dag.
Hún er betri helmingur minn, enda er hún klárari en ég og hefur meira ímyndunarafl. Og hún er líka skapmeiri en ég. Hún er hrædd við flest skordýr, aðallega köngulær, ég er hræddur við þrumuveður.
Sigurveig er menntuð í matreiðslu, frá Cordon Bleu skólanum. Ég er að mörgu leyti feginn að hafa komið eldamennsku hennar út af heimilinu, því nú rekur hún sælkerabúð í Bergstaðastræti 4, á spottanum sem er á milli Laugavegs og Skólavörðustígs.
Sigurveig er meistarakokkur, ótrúlega snjöll að laða það besta úr úr hráefninu og fundvís á einfaldar lausnir.
Í Sælkerabúð sinni framreiðir hún súpur, brauðmeti, kökur, sultur, frönsku makkarónurnar sem eru á heimsmælikvarða og hafraklattana sem eru seldir út um allt land. Allt er búið til úr bestu og ferskustu hráefnum sem völ er á. Það er aldrei gefinn neinn afsláttur af því.
Þetta er heilmikil vinna – og ég er ennþá með samviskubit yfir því að hafa stungið af í sumar og farið til Grikklands en skilið Sigurveigu eftir heima.
Fyrirtækið hennar Sigurveigar tók annars til starfa í október 2008, þegar allt virtist vera að fara til andskotans. Þetta er smáfyrirtæki sem nýtur þess að hafa nokkra góða starfsmenn sem fá ágæt laun. Ekki hefur verið stofnað til skulda. Almennt er ekkert hlaðið undir smáfyrirtæki á Íslandi – en mér hefur stundum fundist að Sigurveig eigi að fá viðurkenningar fyrir dugnað sinn og elju.