fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

Bréf til Brands – íslensk klassík

Egill Helgason
Þriðjudaginn 16. september 2014 19:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég fullyrði í Vestufaraþáttunum að Bréf til Brands eftir Harald Bessason sé með skemmtilegustu bókum á íslensku. Það er stór staðhæfing, en sönn.

Haraldur var lengi prófessor í íslenskum fræðum við Háskólann í Manitoba. Kom þangað fyrst 1956 og var í 31 ár vestra. Hann þekkti því tvenna tíma á Nýja Íslandi.

Haraldur skrifar bókina af feiknarlegri stílfimi, hann segir sögur af mörgum merkilegum persónum, hann greinir það sem hann hefur upplifað vestanhafs, alls staðar skín í gegn húmor, væntumþykja og húmanismi.

breftilb

Bókin er í bréfaformi, stíluð til Brands, fóstursonar Haralds sem býr í Toronto. Þetta er sú bók sem hafði mest áhrif á mig þegar ég var að undirbúa þættina. Úr henni eru komnar ýmsar stórskemmtilegar sögur, eins og til dæmis af því þegar skáldbændurnir við Winnipegvatn með Gunnar Sæmundsson í fararbroddi hlýddu Haraldi yfir í íslenskum kveðskap. Þeir höfðu ekki trú á því að svo ungur maður, úr Skagafirði, gæti tekið við embættinu við háskólann.

Þar er þessi frásögn sem var staðfest af Erlu, dóttur Gunnars, í síðasta þætti Vesturfara. Hér er rætt um kvæðið Martíus eftir Stephan G. – sem Haraldur hafði aldrei heyrt minnst á. Meira að segja börnin á heimilinu urðu undirleit:

Þegar hér var komið sögu sá ég út undan mér að kona Gunnars frú Margrét og börn þeirra hjóna höfðu tekið sér stöðu við opnar stofudyrnar til að fylgjast með húsbónda og gestum. Kunnugir höfðu sagt mér að Margrét stæði manni sínum ekki að baki um þekkingu á íslenskri ljóðagerð, og börn þeirra ung höfðu þegar getið sér orð fyrir utanbókarflutning á ljóðum Stephans G. og Guttorms J. Guttormssonar á samkomum vestra. Ég heyrði, án þess að mér væri það ætlað, að drenghnokkinn Ómar, mörgum árum síðar kennari þinn í sumarbúðum en átta eða níu ára gamall þegar þetta gerðist, sagði í hálfum hljóðum við móður sína, þar sem þau mæðgin stóðu í dyragættinni undrandi á svip, að hann botnaði ekki í að ég skyldi ekki hafa lært Martíus. Systir hans Erla, fáeinum árum eldri, brosti til mín. Ég skynjaði að hún vorkenndi mér fyrir að þurfa að taka afleiðingunum af því að hafa ekki lært. Hún flutti og flytur enn íslensk ljóð betur en flestir. Íslenska sjónvarpið á gamalt myndband með henni þar sem hún flytur meðal annars Hver er allt of uppgefinn eftir Stephan G., þá eitthvað tíu eða tólf ára gömul.

Líðan minni hélt áfram að hraka, en ég hafði samt ekki ennþá misst kjarkinn; verð þó að játa að ekki hafði ég fyrr komið auga á ljóðelsk börnin í dyragættinni en að hugrekkið hjá mér fór að dvína. Ég hafði á tilfinningunni að börnin langaði líka til að spyrja mig um hitt og þetta í kvæðum Stephans G. og annarra skálda. Í fyrstu datt mér í hug að hætta að glíma við spurningarnar hjá Gunnari og snúa mér að börnunum, verða fyrri til, og bjóða þeim að fara með íslensk ljóð fyrir þau. Ungur hafði ég lært utanbókar fimmtán kvæði til inntökuprófs við Menntaskólann á Akureyri, þar á meðal Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson og Hvarf séra Odds frá Miklabæ eftir Einar Benediktsson og fleiri ljóðaperlur. Ef til vill yrði þetta eina tækifærið sem mér gæfist þá um kvöldið til að ná frumkvæðinu í yfirheyrslu sem þegar var orðin drjúglöng og koma þannig í veg fyrir áframhaldandi niðurlægingu.

Bréf til Brands þarf að endurútgefa hið fyrsta. Þessi bók er íslensk klassík.

rt_image01

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þinglok: Ríkisstjórnin styrkir stöðu sína – sundrung innan stjórnarandstöðunnar

Þinglok: Ríkisstjórnin styrkir stöðu sína – sundrung innan stjórnarandstöðunnar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

„Við höfum ekki talað að þrýstingi hagsmunaaðila eða í umboði einhverra annarra en kjósenda okkar“

„Við höfum ekki talað að þrýstingi hagsmunaaðila eða í umboði einhverra annarra en kjósenda okkar“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindabrot gegn fötluðum og öldruðum einstaklingum

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindabrot gegn fötluðum og öldruðum einstaklingum
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Alþingi leyst úr gíslingu

Alþingi leyst úr gíslingu