Ég hef áður sagt að það hafi verið nokkurs konar fokkmerki til þeirra sem vilja breytingar á stjórnarskránni að gera Sigurð Líndal að formanni stjórnarskrárnefndar.
Því Sigurður hefur aldrei legið á þeirri skoðun sinni að ekki þurfi að breyta stjórnarskránni – og hann hefur líka tönnlast á því að ekki sé til neitt sem heitir þjóðareign.
Nú hefur Sigurður verið formaður stjórnarskrárnefndar í heilt ár og þá er greinilegt að honum þykir sjálfum nóg komið. Hann vill ekki breyta stjórnarskránni sjálfur og hann finnur að ríkjandi stjórnvöld hafa engan áhuga á því heldur. Sigurður telur að jafnvel þótt nefndin myndi „skila frá sér góðu plaggi yrði ekkert gert með það“. Þetta má lesa í Morgunblaðinu í dag.
Eftir situr höfuðlaus stjórnarskrárnefnd og þarf væntanlega að finna henni nýjan formann – eða hvað?
Þegar nefndin var kynnt fyrir ári sagði í frétt:
Stefnt er að því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir.