John Martin var enskur málari á rómantíska tímanum, hann var uppi frá 1789 til 1854. Í verkum hans birtast ógurlegar sýnir og hamfarir – heimsslit eru þar yfirvofandi.
Líklega hefur John Martin aldrei séð eldgos – en mér verður hugsað til þessarar myndar eftir hann nú þegar maður óttast eldsumbrot í Bárðarbungu. Sumar ljósmyndirnar frá eldgosinu fyrir austan minna á myndir eftir Martin. Að sumu leyti eru myndirnar hans fjarska nútímalegar, eins framandlegar og þær kunna að virðast. Þessi heitir Dagur reiðinnar og er í Tate safninu í London.
Svo verður að segjast eins og er að pólitískar deilur dagsins virka eins og hjóm miðað við ógnina sem stafar af þessum hamförum. Satt að segja er manni ekki rótt – og í raun frekar erfitt að fylgjast með deilum um skattprósentur þegar svona stendur á.