Ólafur Stephensen kvaddi með stæl á Fréttablaðinu. Skrifaði sinn grjótharða leiðara um eigendavald og hvarf svo á braut. Fréttablaðið er tómlegt án leiðara Ólafs, þeir hafa verið besta efnið í blaðinu ásamt skopmyndum Halldórs Baldurssonar.
Skarð hans verður vandfyllt og varla getur verið auðvelt að halda úti blaði þar sem er svo mikill og langvarandi órói.
Ólafur staðfestir það að eigendur eru mesta vandamálið á íslenskum dagblöðum. Þetta á bæði við um Morgunblaði og Fréttablaðið, stóru blöðin, og nú eru yfirvofandi hreinsanir á DV. Virðist bara dagaspursmál hvenær ritstjórninni þar verður skipt út og væntanlega tekin upp ný ritstjórnarstefna.
Nema nýir eigendur – og það er ýmislegt á huldu um hverjir þeir eru – séu bara að kaupa blaðið til að leggja það niður, líkt og Björgólfur Guðmundsson reyndi að gera á sínum tíma. Það blasir eiginlega við að þeir eru ekki knúðir áfram af hugsjóninni um góða og krefjandi blaðamennsku.
DV hefur náttúrlega barist í bökkum fjárhagslega. Útgáfudagarnir í viku eru ekki nema tveir. Blaðið er ekki lengur alhliða dagblað, heldur í raun meira í ætt við það sem Helgarpósturinn var í eina tíð. En rödd þess er alveg nauðsynleg. DV hefur flutt fréttir og fylgt eftir málum sem aðrir fjölmiðlar sinna lítt eða ekki. Stundum hafa aðrir fjölmiðlar svo tekið upp málin á seinni stigum. Það má til dæmis minna á að blaðamennirnir Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon fengu í febrúar síðastliðnum verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins. Það eru einmitt þeir sem hafa fjallað mest um lekamálið.