Ég hef aldrei verið sérstakur ökufantur og eftir því sem ég eldist minnkar aksturshraðinn hjá mér.
Nú stend ég mig æ oftar að því að tuða yfir bílum sem fara fram úr mér – og ég er farinn að sjá glæfraakstur út um allt.
Ég fór upp í sveit um daginn og bloggaði um að allir hefðu farið fram úr mér. Konan mín, sem sat í framsætinu, gerði grín að mér – hvað annað? Hún segir að ég aki eins og gamall karl og spyr hvort hún eigi að gefa mér hatt.
Hún tók samt undir þetta á Facebook:
Komin heim eftir stutta ferð út á land og verð að tuða aðeins…. Hvað er með þennan hraðakstur? Meina….kann enginn að keyra lengur eða bara halda sig allavega nálægt hámarkshraða? Hvert voru allir að flýta sér svo mikið að það þurfti að keyra á 120-130 km hraða? Og lögreglan? Ekki einu sinni pappalöggur neins staðar. Fussum svei. Grínlaust.
En viti menn.
Eftir að ég var búinn að sniglast um Suðurland á löglegum hámarkshraða, sem hérumbil enginn annar virti, var það ég sem fékk sektartilkynningu frá lögreglunni. Með mynd af mér undir stýri þar sem ég lít út eins og glæpamaður.
Það virðist vera að ég hafi látið spenna mig upp í 97 kílómetra hraða við Gljúfurárholt í Ölfusi – og þar náði myndavél lögreglunnar mér á filmu.
Ég vona að þeir hafi náð hinum – eru einhverjar líkur á því? En þeir böstuðu mig semsagt.