Styrmir Gunnarsson spyr hvort íslenska olíuævintýrið sé búið áður en það nær að hefjast. Styrmir vitnar í skýrslu frá bandaríska bankanum Citigroup:
Citigroup segir olíuiðnaðinn umkringdan vegna þess að gas sé hægt að fá á lágu verði, sparneytnari ökutækja og ótrúlegra framfara í að virkja sólarorku.
Þetta þýði að olíunotkun fari minnkandi á næstu árum og áratugum og þar með séu forsendur brostnar fyrir gífurlegri skuldsetningu olíufyrirtækja til að geta leitað að og unnið olíu á erfiðum stöðum.
Olíuleit er nánast hætt við Grænland um sinn – það er ljóst að olíudraumarnir þar rætast ekki á næstunni. Ketill Sigurjónsson orkubloggari skrifaði í gær:
Þar má nefna að stórlega hefur dregið úr olíuleit við Grænland – a.m.k. tímabundið. Sama á við um olíuleitina norður af ströndum Alaska, þar sem Shell hefur hætt við umfangsmiklar framkvæmdir sem þar voru komnar á fullt. Meira að segja Statoil hefur verið að lenda í veseni norður í Barentshafi. Og það er líka athyglisvert að sérleyfishafarnir á Drekasvæðinu hófust ekki handa við rannsóknir í sumar – og það virðist allsendis óvíst hvort nokkuð gerist þar næsta sumar.