Ég gerði smá tilraun í dag.
Átti tvívegis erindi upp Ártúnsbrekkuna. Ók í bæði skiptin á hámarkshraða sem er auglýstur rækilega á skiltum við veginn.
80 kílómetra hraða á klukkustund.
Eiginlega allir hinir bílarnir fóru fram úr mér.
Um síðustu helgi var ég að keyra úti á vegum. Við vorum að ferðast í ró og næði – um það bil á hámarkshraðanum.
Það var mikið spanað framúr – mesta ferðin var á mótorhjólum sem voru ekki undir 130.
Maður sá eiginlega hvergi lögreglubíl en það er ljóst að þessir mótorhjólamenn og sumir aðrir ökumenn lögðu líf sitt í hættu, og það sem verra er – stofnuðu lífi annarra í hættu.
Nú hef ég ekið bíl víða um heiminn og man eiginlega ekki eftir því að ökumenn fari svona mikið fram úr löglegum hraða. Ég hef tvívegis verið stöðvaður erlendis, í Marokkó og í Kanada. Í Marokkó var það á hraðbraut þar sem var mikið lögreglueftirlit, í Kanada eru held ég prúðustu ökumenn í heimi. Meira að segja ég virka villtur þar.
Grikkland er svolítið sérstakt dæmi. Ég hef verið talsmaður þess að verði sett herlög á vegi í Grikklandi og þau látin gilda í svona ár.