Tímar hafa breyst.
Þegar ég var strákur að vinna í Vestmannaeyjum var ekki hægt að fá mat nema í heimahúsum eða í mötuneytum frystihúsa.
Nú er fjöldi góðra veitingastaða í Eyjum.
Hér er horft út um glugga á Slippnum í gærkvöldi.
Slippurinn er í húsi þar sem áður var vélsmiðjan Magni. Hráleika húsnæðisins hefur verið haldið , hönnun staðarins er einfaldlega frábær, passar fullkomlega inn í bygginguna og rímar við höfnina.
Maturinn er lókal – fiskur og aftur fiskur – og verðið er sanngjarnt. Eitthvað annað en hið fráleita verð sem tíðkast á snobbuðustu stöðunum í bænum.
Mikið er skemmtilegt þegar bestu veitingastaðir Íslands eru ekki lengur í Reykjavík – nei, í rauninni langt frá borginni.
Slippurinn er í hópi minna uppáhaldveitingastaða á Íslandi – ásamt með Tjöruhúsinu á Ísafirði. Það er full ástæða til að gera sér sérferð til Eyja til að borða á Slippnum – bara muna að panta borð.
Ljósmyndin hér að neðan vinnur seint verðlaun, en hérna er horft út um glugga á Slippnum í átt að Heimakletti og Eyjafjallajökull er í fjarska.