Eitt af því sem sýnir best óhugnaðinn sem er á seyði í rússneskum stjórnmálum er að Vladimir Zhirinovskíj skuli vera í fullu fjöri – sem varaforseti Dúmunnar, rússneska þingsins.
Þegar Zhirinovskíj kom fyrst fram var hlegið af honum – maðurinn var álitinn rugludallur.
Ein af tillögum hans var að breyta Íslandi í fanganýlendu.
En nú er Zhirinovskíj í vinfengi við þá sem ráða í Kreml, málflutningurinn er alltaf jafn ruglaður og öfgafullur – en núorðið er hann með samþykki valdhafanna. Þeim finnst ágætt að láta hann derra sig – við hlið hans virka þeir næstu hófsamir.
Nýjasta uppákoman er þegar Zhirinovskíj kom fram á sjónvarpsstöðinni Rossiya 24 í gær og hótaði því að Pólland og Eystrasaltsríkin yrðu þurrkuð út.
Pólska utanríkisráðuneytið mun hafa kallað sendiherra Rússa í Varsjá á fund til að mótmæla þessu – en slíkt stekkur eins og vatn af gæs af mönnum eins og Zhirinovskíj.