Það er mjög vel til fundið að útnefna þá bræður Gunnar og Kristján Jónassyni, kaupmenn í Kjötborg á Ásvallagötu, sem Reykvíkinga ársins og bjóða þeim að veiða í Elliðaánum á opnunardegi þeirra þetta árið. Þetta er skemmtilegur siður sem hófst með Jóni Gnarr.
Um þá bræður hefur verið gerð heimildarmynd sem var sérlega ágæt og enn halda þeir uppi merkjum smákaupmanna í Vesturbænum. Þjónustan sem þeir veita er afar mikilvæg.
Fyrir tíu árumskrifaði ég grein um breytingar í verslun og fjallaði þá meðal annars um Gunnar og Kristján. Greinin birtist í DV í september 2004. Hér er upphaf greinarinnar:
Fyrir nokkru taldi ég saman hversu margar matvörubúðir hefðu verið í Vesturbænum þegar ég var að alast þar upp. Í svipinn mundi ég eftir tuttugu og fjórum búðum. Í og við Ásvallagötuna þar sem ég átti heima voru ekki færri en fjórar búðir, fyrir utan sérstaka mjólkurbúð, kjötverslun, fiskbúð og brauðbúð. Verkamannabústaðirnir voru heilt samfélag með verslunum – og meira að segja bókasafni. Á horni þar fyrir ofan var raftækjaverslun. Svo reyndi ég að átta mig á hversu margar búðir eru í Vesturbænum núna. Melabúðin er enn á sínum stað, en fyrir norðan Hringbrautina lafa held ég þrjár slíkar búðir. Jú, ég er reyndar að gleyma stóru Nóatúnsbúðinni í JL-húsinu og 10-11 búð vestur á Mýrargötu.
Sumar af þessum búðum voru miklar menningarstofnanir og kaupmennirnir ógleymanlegir karakterar. Í Vestubænum var meira segja hermt að einn þeirra hefði gengið aftur eftir andlát sitt – eða réttar sagt ekið, því hann fór um hverfið á afturgenginni Renaultbifreið. Seinna kom í ljós að hann átti tvíburabróður sem hafði erfti bílinn. Búðirnar sem enn lafa minna á gamla tíma og standa ágætlega fyrir sínu. Þar sem núna heitir Kjötborg á Ásvallagötu 19 hefur verið verslunarrekstur samfellt síðan 1929 og hét þá verslun Péturs Kristjánssonar. Síðasti kaupmaðurinn þar, Haraldur Kristjánsson, mikill sómamaður, er nýlátinn.
Nú reka búðina bræðurnir Gunnar og Kristján; þeir eru upprunnir í Bústaðahverfinu en eru löngu orðnir lífið og sálin í þessum hluta Vesturbæjarins. Búðin þeirra gegnir margháttuðu hlutverki í samfélagi hverfisins. Hún er eiginlega ekki síður félagsmálastofnun en félagsmiðstöð. Þarna eru oft feiki fjörugar og andríkar samræður og kemur á óvart hversu fjölbreytt umræðuefnin eru. Gunnar og Kristján eru jafn nærgætnir, skilningsríkir og skemmtilegir við alla, börn fullorðna og gamalmenni, há og lága. Þeir sem standa höllumm fæti í samfélaginu fá skrifað og sleppa þá við að verða hungurmorða. Margir tel ég að gleymi að borga. Þeir þeytast með vörur út um allan bæ til þeirra sem ekki komast að heiman. Ég hef fyrir satt að þeir bræðurnir hafi meira að segja hjálpað til við að búa einstæðingum úr hópi viðskiptavina sinna sómasamlega útför.
Ég hef samt grun um að kaupmenn af þessu tagi eigi ekki sjö dagana sæla. Krúsjoff aðalritari Sovétríkjanna sagði eitt sinn við Nixon sem þá var varaforseti Bandaríkjanna að allir kaupmenn væru þjófar. Þetta var þegar þeir hittustu í miðju kalda stríðinu. Nixon móðgaðist auðvitað, enda var hann kominn af smákaupmönnum. Krúsjoff hafði náttúrlega rangt fyrir sér eins og um annað. Í huga mínum hafa þessir kaupmenn ákveðinn hetjuljóma. Þeir eru tegund í útrýmingarhættu, þeir þurfa að beita ótrúlegri útsjónarsemi til að lifa af, þeir njóta engrar velvildar hjá þeim sem hafa völd í þessu samfélagi, en samt skrölta þeir, held ég aðallega með því að vinna allan sólahringinn og eiga kannski frí tvo daga á ári.
Súpermarkaðir og stórfyrirtæki hafa tekið yfir. Það hefur orðið samfélagsbylting sem menn gefa ekki mikinn gaum. Nokkuð fjölmenn og vel megandi stétt hefur nánast verið að hverfa: smákaupmenn, litlir heildsalar, minni framleiðendur, einyrkjar. Andspænis verslunarrisunum á litli maðurinn ekki séns.