Það er merkileg örvænting sem felst í því að láta sér detta í hug að skipta Halldóri Halldórssyni út sem efsta manni á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, nú þegar aðeins rúm vika er til kosninga, eins og mbl.is segir að sé rætt fundi Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, nú í hádeginu.
Halda menn að Júlíus Vífill Ingvarsson, sem er í öðru sæti, myndi afla meira fylgis?
Halldór var sóttur vestur á Ísafjörð til að leiða listann í Reykjavík. Öfl innan flokksins vildu vera örugg um að fá einhvern sem vildi hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni – og um leið var Gísla Marteini Baldurssyni og síðar Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur skákað til hliðar.
Halldór er farsæll sveitarstjórnamaður, en nánast alveg óþekktur í Reykjavík. Hann hefur unnið sér það til óhelgis gagnvart nokkrum hluta Sjálfstæðisflokksins að ljá máls á aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Það virðist vera að sýna sig að flugvallarmálið er ekkert sérlega vel fallið til atkvæðaveiða, eins og sést á gengi Framsóknar og flugvallarvina. Borgarbúar eru að hugsa um ýmislegt annað þegar þeir kjósa. Stór áhrifavaldur eru persónulegar vinsældir Dags B. Eggertssonar og það að meirihlutinn sem starfaði undir forystu Jóns Gnarrs nýtur mikils álits meðal Reykvíkinga. Því verður ekki breytt snögglega fyrir kosningar.