fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Eyjan

Framsókn ysta hægrisins í Evrópu

Egill Helgason
Fimmtudaginn 15. maí 2014 13:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flokkar lengst til hægri eru í framsókn í Evrópu. Það verður rækilega staðfest í Evrópuþingskosningunum sem fara fram síðar í mánuðinum. Hætt er við að mörgum bregði í brún þegar úrslitin verða ljós – ef marka má skoðanakannanir. ESB er sífellt í einhvers konar krísuástandi – þarna er enn ein krísan í uppsiglingu.

The Daily Telegraph birtir merkilega skýringarmynd þar sem flokkar yst hægra megin  í Evrópu eru greindir. Blaðið flokkar þá í þrennt:

Öfgahægriflokka: Þar eru meðal annars Jobbik í Ungverjalandi og Gullin dögun í Grikklandi, þetta eru flokkar sem hafa bein tengsl við ofbeldi og jafnvel nýnasisma.

Ysta hægrið: Þar höfum við Þjóðfylkinguna í Frakklandi. Frelsisflokk Geert Wilders í Hollandi,  FPÖ í Austurríki, Svíþjóðardemókratana og Norðurbandalagið á Ítalíu. Þessir flokkar eru mikið á móti innflytjendum og íslamstrú, en reyna þó að sverja af sér ásakanir um rasisma.

Pópúlíska hægrið: Þarna eru UKIP í Bretlandi, Þjóðarflokkurinn í Danmörku, Þýskur valkostur í Þýskalandi og Sannir Finnar í Finnlandi. Þessir flokkar eru andsnúnir Evrópusambandinu og vilja mikil höft á innflutning fólks, en geta ekki talist vera jafnlangt til hægri og hinir tveir hóparnir.

Sumir af þessum flokkum stefna í mikinn sigur í Evrópuþingskosningunum. Þjóðfylkingunni frönsku er spáð 23,5 prósentum, flokki Wilders 16,5 prósentum, UKIP er spáð 31,9. Jobbik 22,2 prósentum en Sönnum Finnum 17,6 prósentum.

Það er þó ekki þar með sagt að allir þessir flokkar geti unnið saman. Til dæmis hefur Nigel Farage sagt að ekki komi til greina að starfa með Þjóðfylkingunni frönsku vegna meints gyðingahaturs hennar. Eins er Þjóðarflokkurinn danski hikandi gagnvart Marine Le Pen og Geert Wilders. Þau hafa látið sig dreyma um að leiða stóra fylkingu á Evrópuþinginu en til þess þurfa þau flokka frá fleiri löndum.

En eins og segir, þarna stefnir í kosningaúrslit sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á Evrópu.

Jobbik-fascite-hongroisFélagar úr Jobbik flokknum í Ungverjalandi.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Lára Björg ráðin verkefnastjóri miðlunar og samskipta hjá Háskólanum í Reykjavík 

Lára Björg ráðin verkefnastjóri miðlunar og samskipta hjá Háskólanum í Reykjavík 
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Sundruð stjórnarandstaða – umboðslausir þingflokksformenn

Orðið á götunni: Sundruð stjórnarandstaða – umboðslausir þingflokksformenn