Í dag eru sjúkraliðar í verkfalli, á fimmtudaginn verða það grunnskólakennarar og svo fara flugmenn hjá Icelandair aftur í verkfall á föstudegi.
Það er ekki hægt að segja að ríki friður á vinnumarkaði.
Maður hefði reyndar haldið að reynt yrði að semja við grunnskólakennara fyrir sveitarstjórnakosningarnar 29. maí – þeir hafa boðað verkföll í þrjá staka daga þangað til. En líklega er það borin von.
Menntamálin eru því miður ekkert að komast að í þessum kosningum. Kannski eru þau of flókin eða kannski er áhuginn ekki nógu mikill.
Flugmenn hafa fengið yfir sig miklar gusur síðustu dagana. Það virðist vera útbreidd skoðun að þeir megi ekki fara í verkfall. Ríkisstjórnin hikar samt að segja lögbann á aðgerðir þeirra.
Meginreglan á auðvitað að vera sú að þeir sem selja vinnu sína – og lifa á því – hafi réttinn til að fara í verkfall.
Hví ætti annað að gilda um flugmenn? Eiga þeir sem hafa þokkalega há laun ekki að fá að fara í verkfall – bara þeir launalægstu? Það er ekkert sérlega lógískt.
Og hvað varðar stöðu flugmanna, að þeir geti stöðvað samgöngur, þá eru ýmsir aðrir hópar í þeirri stöðu. Flugfreyjur hjá Icelandair hafa reyndar líka boðað verkföll – án þeirra verður heldur ekki flogið. Það verður 27. maí og svo aftur tvívegis í júní.