Ég fór í gær á bókamarkað sem Ari Gísli Bragason og Bókin halda í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (Nasa).
Þarna er hægt að gera reyfarakaup – markaðurinn er opinn um helgar.
Ég keypti tvær bækur sem Helgafell gaf út á sínum tíma. Birting eftir Voltaire í þýðingu Halldórs Laxness og Mikkjál frá Kolbeinsbrú í þýðingu Gunnars Gunnarssonar.
Og svo keypti ég, já ég er ekki feiminn við að játa það, Arnarborgina eftir Alistair MacLean. Það var reyndar aðallega út af kápunni.
Bækur MacLeans seldust í bílförmum á Íslandi á sjötta og sjöunda áratugnum. Þær voru gefnar út fyrir jól – þetta var jólanæturlesning á mörgum íslenskum heimilum. Það var dálítill viðhafnarbragur á þessari útgáfu, kilirnir voru allir eins og fóru vel í bókahillu, svartir og grænir.
Svo hvarf þetta höfundarverk eins og dögg fyrir sól. Alistair MacLean er hvorki gefinn út né lesinn lengur.
En þetta er partur af íslenskri útgáfusögu og það er gaman að sjá hversu kápurnar voru fínar. Ég keypti semsagt Arnarborgina sem hér má sjá, en þarna eru líka tvær aðrar kápur sem eru skemmtilegar. Ég held að þær hafi verið íslensk framleiðsla.