Þessi mynd sem er tekin af Uppsölum, stóru timburhúsi á horni Túngötu og Aðalstrætis, segir mikla sögu.
Uppsalir var frægt hús, þar voru ýmsar verslanir og veitingastaðir í gegnum tíðina. Þar var til dæmis staður sem einna fyrstur á Íslandi seldi espressokaffi.
Svo lenti það í niðurníðslu og var rifið. Þetta átti við um timburhús i borginni – þau voru yfirleitt orðin skelfing hrörleg þegar komið var fram á áttunda áratuginn. Það þótti eiginlega ekki taka því að gera þau upp.
Menn ímynduðu sér að timburhúsin ættu enga framtíð. Borgarskipulagið gerði ráð fyrir að þau yrðu rifin og hyrfu. Það átti að koma bílabraut gegnum Grjótaþorpið.
Uppsalir voru rifnir – en það kom ekkert í staðinn. Þar var lengi bílaplan – já, bílastæði – þangað til að byggt var hótel sem líkist Uppsölum talsvert að sniði. En í raun er það hrærigrautur gamals og nýs – endurbyggðar fornminjar, en bara til hálfs.
Auðvitað væri miklu glæsilegra ef Uppsalir hefðu fengið að standa í sinni upprunalegu mynd og líka Fjalakötturinn sem stóð innar í Aðalstræti.
En viðhorfin breyttust. Nú er merkilegt að sjá hvernig byggðin er að þróast. Götur sem voru í niðurníðslu eins og Njálsgata og Grettisgata eru orðnar svo litríkar og fallegar að sérlega skemmtilegt er að ganga þar um. Þar er timburhúsabyggðin býsna heilleg. Þetta eru sönn menningarverðmæti.