Pathé kvikmyndafyrirtækið í Bretlandi hefur sett á netið talsvert af efni sem tengist Íslandi og má finna það á YouTube. Það nær alveg aftur til áranna fyrir stríð, en svo er líka yngra efni eins og frá heimsókn Filippusar hertoga af Edinborg til Íslands 1964.
Ég man eftir því að hafa verið barn á Austurvelli þegar hertoganum, eiginmanni Elísabetar drottningar, var fagnað. Hann kom út á svalir Alþingishússins með Ásgeiri Ásgeirssyni forseta. Þetta má sjá á myndunum og einnig þar sem Ásgeir og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra taka á móti Filippusi í Reykjavíkurhöfn.
Þetta hefur verið mikil viðhöfn fyrir ekki meiri valdamann, en kannski hefur heimsóknin þótt mikilvæg í ljósi þess að ekki var langt síðan að lauk öðru þorskastríðinu, þegar Íslendingar færðu landhelgina út í 12 mílur. Filippus kom siglandi til Íslands og í myndinni eru einmitt sýndir breskir sjómenn á togara við Íslands – vinnubrögðin eru býsna fornleg.