Lítill pistill sem ég skrifaði í gær um Guðna Ágústsson vakti nokkuð umtal, ekki voru allir hrifnir.
Ég sagði að framboð Guðna vekti ákveðinn ótta – sumir urðu mjög skömmóttir vegna þessa.
Samt held ég að þetta sé raunin. Guðni ruglar kerfið þegar aðeins rúmur mánuður er til kosninga.
Hann kemur inn á stöðum þar sem meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn eru viðkvæmastir. Talar um flugvöllinn með herskáum hætti og gerir út á þá tilfinningu að fólk í úthverfunum beri á einhvern hátt skarðan hlut.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki farið af sama krafti í þessi mál af þeirri einföldu ástæðu að í baráttusætum á lista flokksins sitja fulltrúar sem vilja flugvöllinn burt og samþykktu nýtt aðalskipulag Reykjavíkur.
Guðni er óbundinn af þessu – og hann er líka í þeirri stöðu að hann getur leyft sér ákveðinn pópúlisma í kosningabaráttunni. Menn búast ekki við öðru af Guðna.
Aðalatriðið er þó að hversu framboð Guðna getur reynst mikilvægt fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Sigmundur er afar vel að sér um skipulagsmál – en það er Guðni ekki. Sigmundur getur kannski tekið hann í tíma.
Það væri afar slæmt fyrir Framsóknarflokkinn ef hann biði algjört afhroð í borgarstjórnarkosningunum, eins og stefndi í með Óskari Bergssyni í fyrsta sæti. Sigmundur Davíð þyrfti að mæta í sjónvarpssal á kosninganótt og réttlæta tapið. Það er mjög óþægileg staða. Eins og ég hef áður bent á sagði Halldór Ásgrímsson af sér sem forsætisráðherra eftir tap í sveitarstjórnakosningum 2006.
Með Guðna kviknar sú von að flokkurinn geti náð fylgi – kannski 10 prósentum, kannski 7 prósentum sem nægja til að ná einum borgarfulltrúa? Framsókn getur túlkað það sem sigur – allavega varnarsigur.
Guðni yrði þá borgarfulltrúi. Það er næsta öruggt að hann yrði í minnihluta. Það er spurning hvað honum finnst það skemmtilegt hlutskipti. En þá gæti hann einfaldlega látið sig hverfa smátt og smátt, tilganginum væri náð, þetta snýst ekki um borgarpólitíkina í Reykjavík heldur um að verja stöðu Framsóknarflokksins.