Fyrir nokkru sat ég í leigubíl með málglöðum bílstjóra sem sagðist eitt sinn hafa starfað í Framsóknarflokknum.
Hann talaði afar hlýlega um Eystein Jónsson, sagði að hann hefði verið góður maður og réttsýnn.
Hann var ekki eins hrifinn af Ólafi Jóhannessyni – arftaka Eysteins.
Sagði að hann hefði verið einráður og dulur.
Mestu mistök Ólafs voru að hrekja úr Framsóknarflokknum helsta leiðtogaefni hans – nefnilega Ólaf Ragnar Grímsson, sagði bílstjórinn.
Þetta gerðist á árunum upp úr 1970. Þá varð til svokölluð Möðruvallahreyfing ungra framsóknarmanna undir forystu Ólafs. Þeir voru á móti Vietnamstríðinu, vildu sumir her úr landi og horfðu til vinstri um ríkisstjórnarsamstarf.
Það fór svo að margir af Möðruvellingunum flæmdust úr Framsóknarflokknum. Ólafur Ragnar fór í Samtök frjálslyndra og vinstrimanna en gekk síðar til liðs við sósíalistana í Alþýðubandalaginu. Náði að verða formaður þess flokks, en var þó aldrei viðurkenndur almennilega af svokölluðu flokkseigendafélagi.
Með Ólafi í för var yfirleitt vinur hans og semherji Baldur Óskarsson.
Nú segir Eyjan frá því að Baldur sé orðinn erindreki á skrifstofu Framsóknarflokksins við Hverfisgötu. Hann er semsagt kominn aftur heim.
Hið sama á auðvitað við um Ólaf. Eftir fjarvistir er hann aftur orðinn einn helsti leiðtogi Framsóknarmanna sem slá dygga skjaldborg um hann.
Elías Snæland Jónsson skráði sögu Möðruvallahreyfingarinnar á bók fyrir nokkrum árum eins og sjá má á þessari vefsíðu. Þar má sjá þessa ljósmynd. Þarna er fundað hjá Framsóknarflokknum, þeir eru hvor sínu megin á myndinni nafnarnir Ólafur Jóhannesson og Ólafur Ragnar Grímsson. Þeim samdi illa.
Þarna er líka að finna þessa mynd af Baldri Óskarssyni, sem þá var formaður Sambands ungra framsóknarmanna, flytja ræðu á fundi hjá herstöðvandstæðingum 1970. Bak við Baldur er Ragnar Arnalds, sem þá var formaður Alþýðubandalagsins.