Þær eru ótrúlegar tölurnar sem birtast á þessu línuriti. Ferðaþjónustan er óðfluga að verða stærsta og verðmætasta atvinnugreinin á Íslandi.
Maður finnur þetta vel, búandi í miðbæ Reykjavíkur. Ferðamannafjöldinn er bókstaflega ótrúlegur miðað við það sem áður var – þannig var það í vetur og nú þegar er komið vor fjölgar enn.
Maður er pínulítið hræddur um að eitthvað kunni undan að láta. Að þetta verði of mikið. Mér skilst að það sé brjálað að gera hjá iðnaðarmönnum sem eru að vinna við að útbúa ný hótelherbergi og nýja veitingastaði. Og svo eru það allar bílaleigurnar, jepparnir og rúturnar sem hefur verið rúllað út til að hagnast að ferðamönnum.
Það virðist býsna stutt í gullgrafaraæðið. Umræðan um gjaldtöku á ferðmannastöðum og spilavíti ber sumpart keim af því – hvernig getum við náð meiri peningum af túristunum?