Við fjöllum um styttur bæjarins í Kiljunni á miðvikudagskvöld, það er að segja styttur af skáldum sem eru á nokkrum stöðum í borgarlandinu. Sumar eru mjög þekktar, aðrar nánast óþekktar. Við veltum líka fyrir okkur hvernig nokkrar styttur sem hafa ekki verið reistar gætu litið út.
Við fjöllum um ævisögu Óskars Jóhannssonar sem lengi var kaupmaður í Sunnubúðinni í Lönguhlíð. Óskar er fæddur í Bolungarvík á kreppuárunum og ólst upp við mikla fátækt og vinnuhörku. Hann flutti svo í bæinn þegar hann var tólf ára og hóf að selja blöð fyrir erlenda hermenn. Bók hans er merk heimild, hann ritar hana sjálfur af listfengi.
Friðrik Erlingsson segir frá librettói eða söngbók óperunnar Ragnheiðar, en hann er annar höfundur hennar ásamt Gunnari Þórðarsyni. Við ræðum um persónur óperunnar og um verk sem hafa áður verið samin um þær, eftir til að mynda Torfhildi Hólm og Guðmund Kamban.
Sigríður Guðmarsdóttir, prestur í Guðríðarkirkju í Grafarholti, segir frá uppáhaldsbókum sínum.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Stangveiðar á Íslandi/Íslenska vatnabók eftir Sölva Björn Sigurðsson og Það sem við tölum um þegar við tölum um ást eftir Raymond Carver í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar.
Styttan af Jónasi Hallgrímssyni er eftir Einar Jónsson og stendur í Hljómskálagarðinum. Ekki taka allir eftir því að Jónas er með lítinn blómvönd í hendinni.