Það geisa harðar deilur um hvort rukka skuli inn á ferðamannastaði.
Menn geta líka spurt sig hvernig eigi að fara að þessu?
Það er til dæmis ekki til prýði að raða upp beljökum á stað eins og Geysi og hafa hópa af ferðamönnum í biðröð. Svoleiðis gengur þetta ekki.
En það er vel skiljanlegt að landeigendur vilji fá eitthvað fyrir sinn snúð – og líka fé til að sinna nauðsynlegu viðhaldi. Ferðaþjónustufyrirtæki sem koma með túrista á þessa staði mokgræða og borga ekkert fyrir afnotin.
Við Geysi er það reyndar þannig að ríkið á hverina – en heimamenn landið í kring.
Það er alls ekki óþekkt erlendis að rukkað sé inn á náttúruvætti. En yfirleitt fer betur á því að innheimta gjald til að fólk komist inn á stærra svæði – eins og til dæmis heilan þjóðgarð. Það er verra ef selt er inn á einstaka fossa eða hveri.
Hætta er á að þetta getið orðið til mikillar óprýði – ferðamennskan má alls ekki við því að verða sjoppulegri en hún er. Í raun er óskiljanlegt hvað ferðaþjónustunni er hlíft við sköttum – vilji menn afla fjár til að byggja upp innviði fyrir ferðamennsku er langauðveldast að gera það með skattheimtu.
Þar eru ýmsir möguleikar sem hafa verið ræddir fram og aftur, hærri virðisaukaskattur, gistináttagjald og hugsanlega náttúruverndargjald á farmiða. Sú staðreynd að ferðamennirnir sem hingað koma eyða minnu en áður, eru úr „ódýrari“ klassa, rennir stoðum undir frekari skattheimtu.