fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Eyjan

ESB-umsóknin og þjóðaratkvæðagreiðslur

Egill Helgason
Laugardaginn 22. febrúar 2014 11:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðasta ríkisstjórn gerði afskaplega stór mistök í Evrópuferlinu.

Þau stærstu voru að bera ekki aðildarumsókn að ESB undir þjóðaratkvæði. Hefði það verið gert má ætla að núverandi ríkisstjórn hefði ekki treyst sér til að draga umsóknina til baka.

En Samfylkingunni lá mikið á, kröfunni um þjóðaratkvæði á þeim tíma var tekið með lítilsvirðingu, eins og það væri fáránleg hugmynd og tíðkaðist hvergi. Því verður að segjast eins og er að krafan um þjóðaratkvæði nú, um hvort eigi að halda áfram, hefur dálítið holan hljóm.

Þjóðaratkvæði um ESB umsókn 2009 hefði líka forðað ríkisstjórninni frá margháttuðum vandræðum og klofningi. Ætla má að VG liðar hefðu unað niðurstöðu þótt hún hefði verið jákvæð – í staðinn var eilíft upplausnarástand í stjórnarliðinu vegna ESB.

Og enn stígur Ögmundur Jónasson fram fyrir skjöldu og greiðir að líkindum atkvæði með því að umsóknin verði dregin til baka. Var Ögmundur þó einn höfundur leiðarinnar sem var farin og var forsenda þess að Samfylkingin settist í ríkisstjórn með VG.

Að þessu sögðu er ekki gott að sjá hvers vegna núverandi ríkisstjórn liggur svo mikið á. Kynningin á skýrslu Hagfræðistofnunar mistókst alveg, hún varð pólitískt rifrildisefni frá því áður en hún birtist, en í henni er ýmislegt sem kallar á meiri og betri umræðu eins og Guðlaugur Þór Þórðarson bendir á í Pressupistli. Það eru örfáir dagar síðan skýrslan kom út.

Svo er von á annarri skýrslu frá aðilum vinnumarkaðarins – ríkisstjórninni getur varla verið alvara með því að láta eins og það framtak skipti engu máli.

Líklegustu skýringarnar eru heimapólitískar. Þar er að nefna þrýsting valdamiklum mönnum eins og Davíð Oddssyni og Þórólfi Gíslasyni – þeir ráða afar miklu innan stjórnarliðsins – og hins vegar er það vilji Framsóknar til að brenna fyrir að að Sjálfstæðisflokkurinn geti hlaupist burt úr stjórninni og farið að vinna með Samfylkingu/Bjartri framtíð.

Það er erfiðara að sjá hvað Sjálfstæðisflokknum liggur á. Það er hlé á umsóknarferlinu og svoleiðis er hægt að hafa það í langan tíma. Líklega væri hægt að láta málið lafa þannig út kjörtímabilið. Eftir gærdaginn logar ófriðarbál í flokknum, það virðist jafnvel möguleiki á að hann klofni. Magnús Geir Eyjólfsson bendir þó réttilega á hér á Eyjunni að mikið þurfi að ganga á til að sjálfstæðismenn yfirgefi flokkinn sinn – þeir eru sauðtyggir.

Svo er þarna verið að loka dyrum á óvissutímum. Við vitum ekki hvernig Íslandi reiðir af með sína örkrónu, gjaldeyrishöft, peningana sem vilja komast út úr kerfinu, lélegu framleiðni, lífskjör eru verri en í nágrannalöndum, bólu sem er að myndast á fasteigna og hlutabréfamarkaði í hinu lokaða krónuhagkerfi og EES samning sem er máski ekki á vetur setjandi.

Ef rétt er að slit hafi í för með að ekki verði hægt að sækja um aftur fyrr en eftir langan tíma eins og lesa má í þessari Eyjugrein – og að þá verði Ísland kannski í annarri og lakari stöðu gagnvart umsóknarferlinu en nú – virkar þetta eins og óþarfa óðagot.

x-bd

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið