Merkileg er sú túlkun Más Guðmundssonar seðlabankastjóra að ekki felist í því vantraust að ríkisstjórnin ákveði að auglýsa stöðu hans lausa til umsóknar.
Már á nú þann kost að sækja um aftur – hann fer semsagt úr stöðu seðlabankastjóra í stöðu umsækjanda.
Þetta svipað og kom fyrir Pál Magnússon. Honum var sagt að útvarpsstjórastaðan yrði auglýst, hann gæti sótt um. Páll kaus að hætta við svo búið.
Fjármálaráðherra hefur reyndar talað af varúð um Seðlabankann – Bjarni Benediktsson er almennt ekki mjög stóryrtur.
En forsætisráðherrann hefur látið ýmsilegt falla um Seðlabankann sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en sem vantraust. Síðast talaði hann um að mat á greiðslujöfnuði væri að tefja afnám gjaldeyrishafta.
Nú veit maður ekki hvað kemur út úr endurskipulagningu á Seðlabankanum. Ef haldið verður áfram með einn bankastjóra er afar ólíklegt að það verði Már Guðmundsson. Verði bankastjórarnir þrír er svosem hugsanlegt að Már verði í þeim hópi – en það er samt ekki sérlega líklegt.
Og auðvitað á eftir að koma í ljós hvort Már sækir um. Það á eftir að skýrast betur, en þetta líkist því að verið sé að reka seðlabankastjórann, á frekar penan hátt.