Már Guðmundsson gæti átt sér hauk í horni ef stendur til að setja hann út úr Seðlabankanum.
Það er enginn annar en gamall yfirmaður hans, félagi og vinur, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Már var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars þegar hann var fjármálaráðherra og enn er strengur milli þeirra.
Það yrði forsetanum semsagt ekki sérlega þóknanlegt ef Már missti starfið í bankanum.
Forsetinn er auðvitað sérstakur velgjörðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hann afhenti honum stjórnarmyndunarumboðið eftir kosningarnar í vor og það dylst engum að milli forsetans og forsætisráðherrans er gott og innilegt samband.
Kannski vill forsætisráðherrann ekki spilla því?
Þetta kann að vera ein ástæða þess að uppi eru hugmyndir um að ráða tvo seðlabankastjóra til hliðar við Má – þá er hægt að koma þangað inn til að mynda Sigurði Hannessyni án þess að styggja Ólaf Ragnar um of.