Sjón verður sérstakur gestur í Kiljunni á miðvikudagskvöld. Hann er nýr handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Mánastein.
Í viðtalinu stiklum við á stóru í ferli höfundarins. Notum til þess hina miklu fjársjóðskistu sem er safn sjónvarpsins – þar leynist margt merkilegt efni um bókmenntirnar. Við tölum um bækurnar hans, súrrealismann, pólitíkina, mannréttindamálin, Björk og Breiðholtið.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Sannleikann um mál Harrys Quebert, en það er mikil metsölubók eftir ungan Svisslending sem heitir Joël Dicker, og Bara börn eftir Patti Smith, en það er sagan af henni og ljósmyndaranum Robert Mapplethorpe.