Það er furðulegt hjá Samfylkingu að birta einungis úrslit í fjögur efstu sætin í prófkjörinu og það án þess að gefa neina skýringu.
Eru úrslitin eitthvað óviss – kunna menn ekki að reikna í Samfylkingunni?
En listinn sem kom út úr prófkjörinu virkar nokkuð sterkur. Dagur B. Eggertsson hefur verið að finna sig vel í borgarmálunum í samstarfinu við Besta flokkinn og eftir að hann hætti að ströggla við að vera varaformaður Samfylkingarinnar.
Í fjórða sætinu, sem er líklega baráttusæti, er kröftug ung kona, Kristín Soffía Jónsdóttir, menntuð í verkfræði.
En það voru fleiri prófkjör. Í bæjarpólitíkinni í Kópavogi eru endalausar deilur sem fæstir skilja. Þar vann bæjarstjórinn, Ármann Kr. Ólafsson, góðan sigur. Ef fer sem horfir ætti Sjálfstæðisflokkurinn að geta unnið sigur í kosningunum í Kópavogi, rétt eins og í bæjunum í kring sem farið er að kalla „bláa kragann“ – einn gallharður Sjálfstæðismaður kallaði það reyndar „bláa öryggisbeltið“ í kringum Reykjavík.
Í Mosfellsbæ var þetta allt eftir bókinni hjá Sjálfstæðisflokknum og á Akureyri líka, skilst manni. Þar er reyndar skrítið ástand. L-listinn sem fékk hreinan meirihluta í síðustu kosningum bíður nær örugglega afhroð í kosningunum í vor og fylgið fer aftur á gömlu fjórflokkana. Gunnar Gíslason fræðslustjóri er nýr oddviti Sjálfstæðismanna á Akureyri og þykir líklegur til að afla flokknum fylgis.
Það gæti semsagt farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn yrði sigurvegari bæjar-og sveitarstjórnakosninganna í vor – nema þá kannski helst í Reykjavík þar sem flokkurinn er í vandræðum.